Leikir dagsins í Lettlandi

Alþjóðlega lettneska mótið hófst í Jelgava í Lettlandi í morgun.

Leikir í forkeppnum greinanna eru í gangi. Eiður Ísak Broddason vann fyrsta einliðaleik sinn gegn Simon Oziminski frá Þýskalandi 21-1, 21-11. Hann tapaði síðan í annarri umferð fyrir Juha Honkanen frá Finnlandi eftir oddalotu 21-14, 17-21, 16-21. Róbert Ingi Huldarsson tapaði leik sínum gegn Ridzwan Rahmat frá Malasíu 11-21, 10-21. Daníel Jóhannesson vann Kristaps Varna frá Lettlandi 21-8, 21-5. Hann mætti svo í annarri umferð Lev Barinov frá Rússlandi. Daníel vann þann leik 21-19, 25-23. Í þriðju umferð lék Daníel gegn Mikhail Lavrikov frá Rússlandi sem var mun sterkari aðilinn í þessum leik sem lauk með sigri Rússans 21-5, 21-6.

Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson sátu hjá í fyrstu umferð forkeppninnar. Davíð Bjarni mætti í annarri umferð Luke Hill frá Englandi og vann 21-11, 21-16. Í þriðju umferð fékk Davíð Bjarni andstæðing frá Sviss, David Orteu. Davíð tapaði þeim leik 10-21, 20-22. Kristófer fékk leikinn sinn í annarri umferð gefinn en Vegard Rikheim frá Noregi forfallaðist og þurfti að gefa leikinn. Kristófer fór því beint í þriðju umferð forkeppninnar og í þeirri umferð lék hann gegn Adam Szolc frá Póllandi. Kristófer vann 21-19, 21-13. Hann leikur gegn Mikhail Lavrikov frá Rússlandi, þeim sama og sló Daníel úr keppni, í fyrramálið. Sá þeirra sem vinnur þann leik fer upp úr forkeppninni. Lavrikov er raðað númer níu inn í forkeppnina en átta fara upp úr forkeppninni í aðalkeppnina.

Sigríður Árnadóttir lék í forkeppni einliðaleiks kvenna gegn Marion Le Turdu frá Frakklandi og tapaði 13-21, 8-21.

Á morgun klárast forkeppnin og aðalkeppni hefst í öllum greinum. Margrét Jóhannsdóttir fór beint inn í aðalkeppnina í einliðaleik kvenna og því leikur hún fyrsta leik sinn í mótinu á morgun.

Skrifađ 1. júní, 2017
mg