top of page
Search
  • bsí

Margrét og Kristófer Darri eru badmintonfólk ársins 2017


Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið Kristófer Darra Finnsson badmintonmann og Margréti Jóhannsdóttur badmintonkonu ársins 2017. Kristófer og Margrét fá viðurkenningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fimmtudaginn 28. desember ásamt íþróttafólki annarra íþróttagreina. Við sama tækifæri munu Samtök Íþróttafréttamanna krýna Íþróttamann ársins 2017.

Margrét varð Íslandsmeistari í einliðaleik á árinu 2017 og komst þar með í hóp örfárra sem hafa orðið þrefaldir Íslandsmeistarar en hún varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik með Sigríði Árnadóttir og Íslandsmeistari í tvenndarleik með Daníel Thomsen.

Kristófer Darri varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik ásamt meðspilara sínum, Davíð Bjarna Björnssyni. Hann komst jafnframt í úrslit í einliðaleik á Meistaramóti Íslands á árinu.

Eftirfarandi er samantekt á helstu afrekum badmintonfólks ársins 2017.

Badmintonmaður ársins 2017 – Kristófer Darri Finnsson f. 19. júní 1997

Badmintonmaður ársins 2017 er Kristófer Darri Finnsson úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Kristófer Darri er Íslandsmeistari í tvíliðaleik en hann náði þeim árangri ásamt meðspilara sínum, Davíð Bjarna Björnssyni, í fyrsta sinn í vor. Hann komst einnig í úrslit í einliðaleik.

Kristófer Darri er í A-landsliði Íslands í badminton og Afrekshópi Badminton-sambandsins. Hann var í unglingalandsliðum Íslands áður og spilaði fyrst með A-landsliðinu árið 2014, þá aðeins 17 ára gamall.

Kristófer æfir og spilar með TBR. Hann varð Reykjavíkurmeistari í einliðaleik á árinu og í tvíliðaleik en hann og meðspilari hans hafa unnið tvíliðaleik karla á öllum mótum á mótaröð BSÍ á árinu. Hann er efstur á styrkleikalista Badmintonsambandsins í einliðaleik og tvíliðaleik, ásamt Davíð Bjarna.

Kristófer Darri hefur tekið þátt í fimm alþjóðlegum mótum á árinu og vinnur að því að vinna sig upp heimslistann. Hann er í 253. sæti listans í tvíliðaleik með einungis fimm mót en listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna á árinu.

Badmintonkona ársins 2017 – Margrét Jóhannsdóttir f. 10. janúar 1995

Badmintonkona ársins 2017 er Margrét Jóhannsdóttir úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Margrét komst í hóp 18 annarra Íslandsmeistara í badminton, sem hafa orðið þrefaldir Íslandsmeistarar, þegar hún varð Íslandsmeistari í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik á árinu.

Margrét vann sinn annan Íslandsmeistaratitill í einliðaleik þegar hún sigraði Sigríði Árnadóttir TBR 21-7, 21-5. Þær unnu síðan saman tvíliðaleik kvenna og hömpuðu, með því, báðar sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í tvíliðaleik. Margrét vann síðan sinn þriðja Íslandsmeistara-titil í röð í tvenndarleik með Daníel Thomsen TBR. Margrét hefur unnið öll mót á árinu, sem hún hefur tekið þátt í innan mótaraðar BSÍ.

Margrét var færð í meistaraflokk aðeins 16 ára gömul en hún á að baki fjöldann allan af Íslandsmeistaratitlum í unglingaflokkum sem og í A- og B-flokki.

Hún hefur keppt með landsliðinu fyrir Íslands hönd um árabil og spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2013, þá 18 ára gömul. Margrét á átta A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd. Áður spilaði hún með U17 og U19 unglingalandsliðum Íslands.

Margrét er í 312. sæti heimslistans þrátt fyrir að vera einungis með fjögur alþjóðleg mót sem hún hefur keppt á en listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna.


138 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page