Gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra Badmintonsambands Íslands en Margrét Gunnarsdóttir, sem gengt hefur starfinu síðastliðin 9 ár, hefur ráðið sig til starfa sem verkefnastjóri fjármála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Nýr framkvæmdastjóri er Kjartan Ágúst Valsson, viðskiptafræðingur. Kjartan er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, af fjármálasviði, árið 2010.
Hann byrjaði að æfa badminton hjá BH 14 ára gamall. Hann varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik karla í A-flokki árið 2008 og varð í 2. sæti í einliðaleik í A-flokki sama ár. Hann var færður í meistaraflokk árið 2009 og spilaði þar með hléum til ársins 2015.
Kjartan hefur starfað hjá Kirkjugarði Hafnarfjarðar frá árinu 2010. Auk þess hefur hann starfað sem þjálfari hjá Badmintonfélagi Hafnarfjarðar í 12 ár, fyrst sem aðstoðarþjálfari, svo sem þjálfari ákveðinna aldurshópa og síðustu ár hefur hann verið yfirþjálfari keppnishópa félagsins.
Þórunn Eva Guðbjargar er eiginkona Kjartans og þau eiga tvo stráka, Jón Sverri 13 ára og Erik Val 6 ára.
Stjórn BSÍ þakkar Margréti fyrir vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í framtíðinni. Jafnframt hlakkar stjórn til að vinna með Kjartani, sem hófur störf nú um áramótin.