top of page
Search
  • bsí

Jeppe Ludvigsen ráðinn afreksstjóri / aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands í badminton


Badmintonsamband Íslands hefur ráðið Jeppe Ludvigsen sem aðstoðarlandsliðsþjálfara og afreksstjóra sambandsins.

Jeppe er fæddur árið 1989 og er hann með BS gráðu í Íþróttafræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn. Einnig hefur Jeppe lokið fjölda af námskeiðum sem tengjast líkamlegri þjálfun og sérhæfðri þjálfun fyrir badmintonleikmenn. Þrátt fyrir ungan aldur býr hann yfir mikilli reynslu, bæði sem leikmaður og þjálfari.

Jeppe hóf þjálfarastörf sín í Rodovre Badminton Club hjá unglingahópum félagsins á árunum 2002-2004. Þaðan fór hann til Hvidovre Badminton Club þar sem hann var yfirþjálfari U9-U11 á árunum 2004-2007. Á árunum 2009-2016 var hann þjálfari hjá Værlöse Badminton þar sem hann bar ábyrgð á bestu U15 spilurum klúbbsins, sem eru á meðal þeirra bestu í Evrópu og jafnframt sá hann um styrktarþjálfun allra unglinga hjá klúbbnum. Einnig var hann þjálfari eldri leikmanna Værlöse sem voru í liði nr.2 (í dönsku deildinni) hjá félaginu.

Á tímabilinu 2016-2017 starfaði hann bæði hjá Hvidovre Badminton og Badminton Roskilde. Hjá Hvidovre var hann yfirþjálfari eldri leikmanna liðsins og hjá Roskilde sá hann um alla styrktarþjálfun fyrir leikmenn klúbbsins auk þess að vera þjálfari fyrir besta lið félagsins í dönsku deildinni.

Á árunum 2016-2017 hóf hann störf hjá Badmintonsambandi Danmerkur sem verkefnastjóri. Árið 2017 var hann svo ráðinn hjá Badmintonsambandi Danmerkur sem leikgreinandi (video analyzer) og einnig í það hlutverk að sjá um alla styrktarþjálfun fyrir útvalda einstaklinga úr U23 hópi danska landsliðsins og starfar í því hlutverki áfram. Á árinu 2017 var hann jafnframt ráðinn til Greve Strands Badmintonklubb sem yfirþjálfari 17-25 ára keppenda liðsins og einnig sem þjálfari fyrir keppnislið félagsins sem tekur þátt í dönsku deildinni.

Á þessu ári var hann síðan ráðinn til KMB þar sem hann starfar sem yfirþjálfari eldri leikmanna liðsins og keppnisliðs þeirra.

Mun hann sinna störfum sínum hjá KMB og Badmintonsambandi Danmerkur áfram samhliða störfum sínum fyrir Badmintonsamband Íslands.

Jeppe mun vinna með Tinnu Helgadóttur landsliðsþjálfara og Atla Jóhannessyni aðstoðalandsliðsþjálfara. Hann mun einbeita sér að þjálfun Afrekshóps BSÍ. Einnig er Jeppe ráðinn inn sem afreksstjóri sambandsins og mun hann stýra afreksstarfinu í samstarfi við Tinnu Helgadóttur landsliðsþjálfara, Atla Jóhannessyni aðstoðarlandsliðsþjálfara, Afreks- og landsliðsnefnd BSÍ og stjórn BSÍ.

Í samstarfsverkefni með aðildarfélögum mun hann einnig miðla af reynslu sinni til þjálfara íslensku félaganna og stýra endurmenntun fyrir þá. Badmintonfélag Hafnarfjarðar (BH) og Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur (TBR) ákváðu að styðja þetta samstarfsverkefni. Öllum félögum mun standa til boða að senda þjálfara á æfingar til að efla starfið hjá sér. Eins geta önnur félög sem hafa áhuga á að styrkja samstarfið sett sig í samband við Badmintonsambandið.


205 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page