top of page
Search
  • bsí

Svakalegur leikur gegn Portúgal


Íslenska landsliðið lék í gær þriðja og síðasta leik sinn í riðlinum í forkeppni fyrir Evrópumeistaramót landsliða og var sá leikur gegn Portúgal. Má með sanni segja að allir fimm leikir leiksins hafi verið gríðarlega spennandi og réðust úrslitin í síðasta leiknum, í þriðju lotu.

Tinna Helgadóttir stillti upp sama liði og hún hafði gert gegn Hollandi og Sviss.

Kristófer Darri Finnsson og Margrét Jóhannsdóttir áttu fyrst leikinn gegn Duarte Nuno Anjo og Önu Reis. Unnu Kristófer og Margrét þennan leik í tveimur jöfnum lotum 21 - 18 og 24 -22. Kári Gunnarsson mætti Bernardo Atilano í einliðaleik karla og fór sá leikur í oddalotu. Bernardo vann fyrstu lotuna 21 - 12 en Kári vann þá seinni 21 - 9. Í oddalotunni þurfti upphækkun til að knýja fram úrslit þar sem Kári hafði betur 22 - 20 og var staðan því orðin 2 - 0 fyrir Ísland.

Arna Karen Jóhannsdóttir spilaði einliðaleik kvenna fyrir Ísland og mætti hún þar Önu Moura og þurfti Arna Karen að játa sig sigraða eftir jafnan leik 17 - 21 og 17 - 21. Í tvíliðaleik karla spiluðu Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson gegn þeim Bruno Carvalho og Tomas Nero og var sá leikur mjög jafn og spennandi en fór svo að Bruno og Tomas unnu 17 - 21 , 21 - 17 og 16 - 21. Var staðan því orðin 2 - 2 þegar að fimmta og síðasta leik var komið sem var tvíliðaleikur kvenna. Fyrir Ísland spiluðu þær Sigríður Árnadóttir og Margrét Jóhannsdóttir en þær mættu Soniu Goncalves og Önu Reis og var allt undir í þessum leik hvort liðið færi með sigur að hólmi í viðureigninni. Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi og þurfti enn og aftur oddalotu til að knýja fram úrslit. Sonia og Ana höfðu þar betur en leikurinn fór 18 - 21, 21 - 19 og 19 - 21. Þar með höfðu Portúgalar unnið viðureignina 2 - 3.

Það voru Hollendingar sem unnu þennan riðil örugglega en þeir unnu allar sínar viðureignir og eru þar með búnir að vinna sér rétt inn á lokakeppni Evrópumeistaramóts landsliða ásamt 6 öðrum þjóðum sem unnu einnig sína riðla en það voru : England , Frakkland , Rússland, Spánn, Írland, Þýskaland. Danir sem eru ríkjandi Evrópumeistara fengu beint sæti inn í lokakeppnina.

Hér má sjá öll úrslit úr riðli 3 hjá Íslandi

Hér má svo sjá viðtal við Kára Gunnarsson sem var tekið eftir sigur hans á Bernardo Atilano.


185 views0 comments
bottom of page