top of page
Search

Frábær endurkoma í annarri lotu hjá Davíð Bjarna og Kristófer á EM einstaklinga 2025!

  • annamargret5
  • Apr 9
  • 2 min read


Landsliðsmennirnir Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson tóku þátt í Evrópumeistaramóti einstaklinga sem fram fer í Horsens í Danmörku þessa dagana.


Þar kepptu þeir í tvíliðaleik gegn sterku dönsku pari, Daniel Lundgaard og Mads Vestergaard. Danirnir eru meðal 30 efstu í heiminum og spiluðu t.a.m. á All England s.l. mars en það er eitt elsta og virtasta badmintonmót heims.


„Davíð Bjarni og Kristófer náðu flottri endurkomu í seinni lotunni og voru nálægt því að jafna leikinn,“ segir landsliðsþjálfarinn Kenneth Larsen, sem var með þeim til halds og traust á hliðarlínunni.„Það stóð upp úr hversu vel strákarnir náðu að aðlaga spilið eftir fyrsta settið og hvernig þeir tóku frumkvæðið í annarri lotunni.”




Næstu markmið og lærdómur 

Kenneth segir að næsta frammistöðumarkmið þeirra sé að geta brugðist hraðar við óvæntri þróun leiksins og gera taktískar breytingar á meðan á leik stendur:„Það er lykilatriði á þessu stigi að geta aðlagað leik sinn og gert breytingar strax. Það var góð og uppbyggileg umræða sem við áttum saman eftir leikinn.”



Andlegi þátturinn – að trúa á sjálfan sig á stórmóti 

Að keppa á stórmóti getur verið bæði spennandi og krefjandi. „Við ræddum það sérstaklega að þegar menn eru í hlutverki "underdog" þurfi þeir að trúa á eigin getu,“ segir Kenneth.„Þeir stóðu sig virkilega vel í seinni lotunni og höndluðu pressuna.“


Liðsandinn er einnig sterkur: „Þeir eru frábært teymi – styðja hvorn annan og þekkja leikinn mjög vel. Núna snýst þetta um að treysta því sem þeir kunna, sérstaklega þegar mótherjarnir eru sterkari á pappírunum.“


Umgjörðin og stuðningurinn skipti máli 

Strákarnir voru sjálfir mjög ánægðir með ferðina:„Umgjörðin var geggjuð – það var gaman að spila þarna, sérstaklega gegn heimamönnum á heimavelli. Þetta var frábær reynsla og gaman að sjá að við gátum strítt toppleikmönnum.“


Strákarnir fengu einnig góðan stuðning í Danmörku:„Við fengum frábæran stuðning – foreldrar okkar beggja komu með okkur út og það skipti miklu máli fyrir okkur.“



Við óskum Davíð Bjarna og Kristófer Darra innilega til hamingju með flottan leik og hlökkum til að fylgjast með áframhaldinu!


Næsta mót er Meistaramót Íslands sem haldið verður í TBR dagana  24.-26. apríl n.k. Við hvetjum öll að mæta og fylgjast með okkar bestu spilurum keppa um Íslandsmeistaratitilinn!

 
 
 

Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.

©2017 BY BADMINTONSAMBAND ÍSLANDS. PROUDLY CREATED WITH WIX.COM

  • facebook
bottom of page