top of page
Search
  • bsí

Kári Gunnarsson og Margrét Jóhannsdóttir eru badmintonfólk ársins 2020Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið Kára Gunnarsson badmintonmann og Margréti Jóhannsdóttur badmintonkonu ársins 2020.

Eftirfarandi er samantekt á helstu afrekum badmintonfólks ársins 2020.


Badmintonmaður ársins 2020 - Kári Gunnarsson f. 11. janúar 1991.


Badmintonmaður ársins 2020 er Kári Gunnarsson úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Kári er Íslandsmeistari í einliðaleik karla og er þetta níunda skiptið í röð sem hann vinnur þennan titil.

Kári hefur verið mikilvægur í landsliði Íslands undanfarin ár og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla í landsleikjum. Kári spilaði sinn fyrsta A-landsliðsleik árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall. Kári hefur spilað 26 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.


Kári stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum 2021 en það er heimslistinn sem ræður hverjir öðlast keppnisrétt. Covid-19 setti mikinn svip á allt íþróttalíf og náð Kári einungis að taka þátt í 4 alþjóðlegum mótum á árunum en öllum öðrum mótum var ýmist frestað eða felld niður. Nýtt Ólympíukeppnistímabil hefst í janúar og fer Kári þá á fullt að keppa og sækja sér stig á Ólympíulistann. Listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna.


Kári er búsettur í Danmörku og er núna í Center of Excellence sem er á vegum Badminton Europe og er staðsett í Holbæk í Danmörku. Þar býr og æfir Kári undir handleiðslu þjálfara á vegum Badminton Europe.


Badmintonkona ársins 2020 - Margrét Jóhannsdóttir f. 10. janúar 1995


Badmintonkona ársins 2020 er Margrét Jóhannsdóttir úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Margrét Jóhannsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari á árinu. Fimmta árið í röð varð hún Íslandsmeistari í einliðaleik. Margrét varð einnig Íslandsmeistari í tvíliðaleik ásamt Sigríði Árnadóttur.

Margrét varð Hleðslubikarmeistari í tvíliðaleik ásamt Sigríði Árnadóttur en tveir efstu leikmenn á styrkleikalista sambandsins í lok tímabilsins í hverri grein hljóta þann titil.


Margrét hefur verið mjög mikilvæg fyrir íslenska landsliðið síðastliðin ár og á hún að baki 16 A-landsleiki en fyrsta A-landsleikinn spilaði hún árið 2013, þá 18 ára gömul.


Margrét var færð í Meistaraflokk aðeins 16 ára gömul en hún á að baki fjöldann allan af Íslandsmeistaratitlum í unglingaflokki, sem og í A- og B-flokki.

56 views0 comments

Comments


bottom of page