top of page
Search
  • bsí

Sterkir andstæðingar í dag



Íslenska kvennalandsliðið hóf leik kl 08:00 í morgun gegn Rússlandi í öðrum leik liðsins í riðli 2 á Evrópumeistaramótinu. Rússar eru með aðra röðun inn í mótið og þykja því sigurstranglegar. Sigríður Árnadóttir spilaði fyrsta einliðaleik kvenna gegn Evgeniya Kosetskayu en hún er númer 26 á heimslistanum í einliðaleik kvenna. Fór leikurinn svo að Evgeniya vann 21-3 og 21-3. Sólrún Anna Ingvarsdóttir spilaði annan einliðaleikinn og mætti hún Viktoriiu Kozyrevu. Viktoriia byrjaði leikinn að krafti og vann fyrstu lotuna 21-12. Í seinni lotunni náði Sólrún að byrja örlítið betur og var jafnt í stöðunni 5-5 en þá náði Viktoriia fjagra stiga forskoti og jók svo við það jafnt og þétt. Seinni lotuna vann Viktoriia 21-12. Arna Karen Jóhannsdóttir mætti Mariiu Golubevu í þriðja einliðaleiknum. Arna byrjaði leikinn ekki nógu vel og komst Mariia í 6-0 en Arna náði að minnka forskotið í stöðunni 9-7. Eftir leikhlé spilaði Mariia vel og vann lotuna 21-12. Seinni lotan byrjaði á svipaðan hátt og komst Marria í 9-2 en Arna barðist virkilega vel og minnkaði muninn í 17-14. Seinni lotan endaði þó með sigri Mariiu 21-16.

Fyrsta tvíliðaleik kvenna spiluðu Erla Björg Hafsteinsdóttir og Sólrún Anna Ingvarsdóttir en þær mættu Ekaterinu Bolotovu og Alinu Daveltovu. Voru rússnesku stelpurnar mjög sterkar og unnu leikinn 21-7 og 21-7. Seinni tvíliðaleikinn spiluðu Arna Karen Jóhannsdóttir og Sigríður Árnadóttir gegn Anastasiiu Akchurinu og Olgu Morozovu. Líkt og í fyrri leiknum voru rússarnir annsi sterkar og unnu leikinn 21-14 og 21-12. Lauk því viðureigninni með 5-0 sigri Rússlands. Síðasti leikur riðilsins verður svo á morgun gegn Belgíu kl 09:00 á íslenkum tíma en ljóst er að það verður einnig erfiður leikur en Belgía vann Litháen 5-0 í dag.





Strákarnir spiluðu nú seinni partinn í sínum riðli gegn Tékklandi. Kári Gunnarsson lék fyrsta einliðaleik gegn Milan Ludik og var vitað fyrir leikinn að hann yrði gríðarlega jafn. Milan er í 140 sæti heimslistans í einliðaleik en Kári í 129.sæti. Kári vann fyrstu lotuna 22-20 en Kári hafði haft yfirhöndina meirihlutann í þeirri lotu. Önnur lotan var mjög jöfn fram að leikhléi en eftir hléið náði Milan góðu forskoti og vann að lokum lotuna 21-17. Í oddalotunni náði Milan strax góðri forystu og var kominn í stöðuna 20-9 en Kári tók þá virkilega góðan kafla og minnkaði muninn í 20-18 en fór svo að lokum að Milan vann 21-18. Kristófer Darri Finnsson lék einliðaleik númer tvö gegn Jan Louda þar sem að Jan hafði góð tök á leiknum allan tímann og vann 21-9 og 21-4. Daníel Jóhannesson lék þriðja einliðaleik gegn Ondrej Král. Fyrsta lotan var jöfn framan en í stöðunni 8-6 fyrir Ondrej tók hann góðan kafla og jók forskotið í 17-6 og vann að lokum lotuna 21-8. Í annarri lotunni hafði Ondrej svo góð tök á leiknum og vann 21-10.

Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson mættu Jaromir Janacek og Tomás Svejda í fyrsta tvíliðaleiknum. Davíð Bjarni og Kristófer unnu fyrstu lotuna 21-18 en töpuðu annarri lotunni 13-21. Í oddalotunni höfðu þeir tékknesku betur 11-21. Daníel Jóhannesson og Kári Gunnarsson mættu Ondrej Král og Adam Mendrek í seinni tvíliðaleiknum þar sem þeir Ondrej og Adam unnu 21-16 og 21-13.

Lauk því viðureigninni með 5-0 sigri Tékklands.

Strákarnir spila síðasta leik sinn á morgun gegn Þýskalandi klukkan 17:00 á íslenskum tíma.


Öll frekari úrslit má finna með því að smella hér.

116 views0 comments

Comments


bottom of page