top of page
Search

Tinna H. Ludvigsen – meðal fremstu badmintonþjálfara í heiminum!

  • annamargret5
  • May 14
  • 5 min read

Það er ekki á hverjum degi sem evrópsk kona stýrir liði í úrslitum á einni stærstu badmintonmótaröð heims – en það gerðist í byrjun árs þegar tvenndarleiksparið Thom GICQUEL og Delphine DELRUE undir handleiðslu  Tinnu H. Ludvigsen unnu til silfurverðlauna á India Open 2025 á Super 750 móti s.l. janúar.


Við tókum púlsinn á Tinnu, sem er í dag landsliðsþjálfari Frakklands í tvíliða- og tvenndarleik, og fengum innsýn í hennar feril, upplifun hennar á stórmótum og hennar sýn á badmintonheiminum.

 

Frá leikmanni til þjálfara í fremstu röð

Tinna byrjaði snemma að æfa badminton, aðeins 5 ára gömul, undir handleiðslu föður síns sem var badmintonþjálfari. Hún sýndi strax mikla hæfileika og æfði af krafti, sem skilaði sér í glæsilegum ferli sem leikmaður. Hún keppti í sterkum deildum bæði á Íslandi og erlendis og vann til fjölda verðlauna. Meðal hápunkta á ferlinum var sigur í Helvetia Cup og í dönsku úrvalsdeildinni 2009 þar sem hún spilaði með Greve einu sterkasta félagsliði landsins.


„Ég spilaði mitt besta badminton 26-28 ára og þetta var skemmtilegasta tímabilið á ferlinum mínum“.


Eftir að leikmannaferlinum lauk tók Tinna skrefið yfir í þjálfun, og það leið ekki á löngu þar til hún var komin í fremstu röð. Hún hóf störf hjá Værløse í Danmörku, einu sterkasta félagi landsins, og varð yfirþjálfari yfir unglingadeildinni. Þar sá hún til þess að ungir leikmenn fengju vandaða þjálfun og leiðsögn, sem leiddi til þess að félagið vann flesta titlana á danska meistaramótinu árið 2019.


Mynd: Tinna Íslandsmeistari í einliðaleik og tvenndarleik 2013


Í dag er hún landsliðsþjálfari Frakklands í tvíliða- og tvenndarleik og er með yfirumsjón yfir átta leikmönnum í landsliðssetrinu INSEP. Hún starfar í öflugu þjálfarateymi þar sem unnið er skipulega með styrktarþjálfurum, íþróttafræðingum, íþróttasálfræðingum og sérfræðingum í myndbandsgreiningu til að hámarka árangur leikmanna.


Tinna og teymið  - “technical staff”
Tinna og teymið  - “technical staff”

Úrslitaleikur á Super 750 – hvernig var upplifunin?

„Það var ótrúleg reynsla að þjálfa í úrslitum á Super 750 móti,“ segir Tinna. Þrátt fyrir að hún hafi haldið ró sinni og sýnt stilli þá sýndi Garmin-úrið hennar annað: „Stressið fór í hæstu hæðir og hélst þannig allan daginn“.


Thom GICQUEL og Delphine DELRUE leikmenn Tinnu hnepptu silfrið
Thom GICQUEL og Delphine DELRUE leikmenn Tinnu hnepptu silfrið

Undirbúningur og áskoranir á stærstu mótunum

Þegar kemur að mótum á hæsta stigi skiptir undirbúningur öllu máli. Tinna útskýrir að skipulagið byrji löngu áður en fyrsta skrefið er tekið inn á völlinn.

„Við byrjum að greina mótherja um leið og drátturinn kemur út og förum ítarlega yfir leikáætlanir,“ segir hún. „Tom og Delphine eru á þeim stað að þau eru röðuð í stærstu mótunum, sem þýðir að þau komast oft í gegnum fyrstu umferðirnar án þess að þurfa að eyða of mikilli orku í andstæðingana. Það gerir okkur kleift að einbeita okkur að stærri áskorunum sem bíða síðar í mótinu.“


Á India Open 2025 móti voru þau í undanúrslitum gegn þriðja besta tvenndarleiksp­ari heims, þar sem myndbandsgreining og vel skipulögð leikáætlun voru lykillinn að árangri.

Undirbúningurinn er krefjandi og nær oft inn í „frídaga/ hátíðir“.

„Við vinnum innan ramma sem styrktarþjálfarinn setur upp, þar sem allur undirbúningur er skipulagður með tímabilaskiptingu í huga. Við vorum komin út fimm dögum fyrir mótið til að aðlagast aðstæðum og æfa af fullum krafti,“ útskýrir Tinna.

 

 

Helstu áskoranir á mótinu

Í mótum sem þessum er nauðsynlegt að stjórna orkunni vel. „Við fengum góðan drátt og fókusinn var skýr – vinna hratt og eyða ekki of mikilli orku. Síðan, þegar kom að sterkari andstæðingum, færðum við fókusinn yfir á smáatriðin í leikáætluninni.“

Eitt af stærstu verkefnunum var leikurinn gegn mjög sterku japönsku pari. „Þá þurftum við að leggja mikla vinnu í leikáætlunina og tryggja að við værum taktískt tilbúin. Þegar við svo mættum þriðja besta tvenndarleiksparinu í undanúrslitum, var myndbandsvinnan og taktíska skipulagið afgerandi fyrir árangurinn.“


Stemningin á stórmóti – á vellinum og á bak við tjöldin

Badminton er ein vinsælasta íþrótt heims, en stemningin á mótunum er mismunandi eftir löndum.

„Í Malasíu, Kína og Indónesíu er gríðarleg stemning því badminton er stærsta og vinsælasta íþróttin þar,“ segir Tinna. „Í Evrópu upplifir maður einnig frábæra stemningu, sérstaklega í Frakklandi og Danmörku.


En á bak við tjöldin er vinnan stöðug, sama hvernig gengur á mótinu. „Það sem fólk áttar sig ekki alltaf á er að leikmenn sem detta út snemma eru ekki í neinu fríi – þeir fara beint í æfingar til að undirbúa sig fyrir næsta mót.


Einnig er það sama upp á teningnum hjá þeim bestu - til dæmis tekur An Se-young, besta einliðaleikskona heims, oft klukkutíma æfingu eftir fyrstu leiki sína á mótunum, því þeir einir og sér eru yfirleitt ekki nægilega krefjandi til að halda henni í toppformi.“


Tinna að þjálfa á India Open 2025 á Super 750 móti s.l. janúar.
Tinna að þjálfa á India Open 2025 á Super 750 móti s.l. janúar.

 Stærstu mótin sem Tinna hefur þjálfað á:

· HM 2021 og 2023

· Super 1000 mót – 5 mót

· Super 750 – „Besti  árangur sem leikmennirnir mínir hafa náð var silfur á India Open 2025“

 

Badminton í fremstu röð – hvað þarf til að komast þangað?

Tinna hefur unnið með sumum af bestu ungu leikmönnum Evrópu. Hún segir að lykilinn að velgengni sé skýr stígandi í þjálfunarkerfinu.


Í Frakklandi er ferlið eftirfarandi:

  • 11-12 ára: Efnilegir leikmenn færa sig á svæðisbundin afrekssvæði

  • 15-16 ára: Byrja sérhæfingu (einliða- tvíliða- tvenndarleik) með um 18 klst af æfingum á viku

  • 18 ára: Ef nægilega góð þá er þeim boðið að flytja í Insep – frönsku landsliðsmiðstöðina

  • Daglegt líf í landsliðinu: Tvær æfingar á dag, 4 klst badminton og 2 klst styrktarþjálfun


„Þessi agi og skipulag hefur gert Frakkland að einu sterkasta badmintonlandi Evrópu í dag“.



Að vera kona í þjálfun á hæsta stigi – hvar eru hinar?

Tinna er sú eina frá Evrópu sem þjálfar á þessu hæsta stigi á World Tour mótaröðinni. Þrátt fyrir að fleiri konur séu farnar að þjálfa í alþjóðlegum badmintonmótum, þá eru þær aðallega að þjálfa kvenmenn í einliðaleik eða tvíliðaleik.


„Það þarf að stökkva á tækifærin þegar þau gefast – og vera tilbúin að leggja mikið á sig, jafnvel að flytja á milli landa,“ segir Tinna og hvetur fleiri konur til að fara í þjálfun.

 

Utan vallar

Hvað gerir þú utan vinnu til að til að halda jafnvægi í lífinu?

„Utan vinnu finnst mér gaman að hlaupa, fara í yoga og ferðast. Við erum yfirleitt með tvo daga í viku í frí. Eftir stórmót fáum við 1-2 vikur í frí“.

Hefurðu einhver lífsmottó eða heimspeki sem stýrir þér í vinnu og lífi almennt?

„Tryggð við mín gildi – tryggð við fjölskylduna, þjálfarana og við leikmennina mína“.

 

Framtíðarsýn og ráð til íslenskra þjálfara

Tinna hefur skýr markmið fyrir næstu ár – hún stefnir á verðlaun á Ólympíuleikum og Heimsmeistaramóti í tvenndarleik og vill einnig aðstoða Frakka að ná Evrópumeistaratitli í einliðaleik karla.


Hvað með íslenskt badminton? Sérðu fyrir þér að snúa aftur til Íslands?

„Ekki eins og staðan er í dag,“ segir hún hreinskilnislega. En hvað myndi hún vilja sjá á Íslandi?

„Ég myndi vilja sjá erlenda þjálfara koma til Íslands og þjálfa krakkana okkar. Við þurfum líka að hvetja krakkana okkar til að leggja meira á sig og hafa meiri metnað.“

 

Hvetjum fleiri stelpur og konur til að verða þjálfarar!

Með eljusemi og metnaði geta konur, rétt eins og karlar, náð langt í þjálfun. Tinna er sönnun þess að með réttu hugarfari, menntun og staðfestu eru engin takmörk fyrir því sem hægt er að afreka – í dag er hún meðal fremstu þjálfara Evrópu!

Við hvetjum allar stelpur og konur sem hafa áhuga á badminton til að taka fyrsta skrefið, hefja þjálfun hjá sínu félagi og setja sér sífellt hærri markmið.


Takk fyrir spjallið Tinna gangi ykkur vel!


Viðtalið við Tinnu var tekið í febrúar s.l. og síðan þá hafa Thom og Delphine komist í undanúrslit á All England og náðu öðru sæti á Evrópumeistaramótinu í Horsens í apríl.  

 

Öflugir þjálfarar eins og þið eru lykillinn að vexti og framþróun badmintons á öllum stigum í Evrópu!



Myndir af badmintonæfingu í Insep landsliðsmiðstöðinni:

 

 
 
 

Comments


©2017 BY BADMINTONSAMBAND ÍSLANDS. PROUDLY CREATED WITH WIX.COM

  • facebook
bottom of page