top of page
Search
  • bsí

Kári Gunnarsson og Margrét Jóhannsdóttir eru badmintonfólk ársins 2018


Stjórn Badmintonsambands Íslands hefur valið Kára Gunnarsson badmintonmann og Margréti Jóhannsdóttur badmintonkonu ársins 2018. Kári og Margrét fá viðurkenningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands laugardaginn 29.desember ásamt íþróttafólki annarra íþróttagreina. Við sama tækifæri munu Samtök Íþróttafréttamanna krýna Íþróttamann ársins 2018.

Kári Gunnarsson varð Íslandsmeistari í einliðaleik á árinu 2018 og var þetta sjöunda árið í röð sem Kári vinnur þennan titil. Kári komst jafnframt í úrslit í tvenndarleik á Meistaramóti Íslands á árinu.

Margrét Jóhannsdóttir varð Íslandsmeistari í einliðaleik á árinu 2018 og var þetta þriðja árið í röð sem hún vinnur þennan titil. Margrét varð einnig Íslandsmeistari í tvíliðaleik ásamt Sigríði Árnadóttur en þetta var annað árið í röð sem þær vinnan þennan titil.

Eftirfarandi er samantekt á helstu afrekum badmintonfólks ársins 2018.

Badmintonmaður ársins 2018 - Kári Gunnarsson f. 11. janúar 1991.

Badmintonmaður ársins 2018 er Kári Gunnarsson úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Kári er Íslandsmeistari í einliðaleik karla og er þetta sjöunda skiptið í röð sem hann vinnur þennan titil. Kári komst einnig í úrslit í tvenndarleik á Meistaramóti Íslands.

Kári hefur verið mikilvægur í landsliði Íslands undanfarin ár og spilar jafnan fyrsta einliðaleik karla í landsleikjum. Kári spilaði sinn fyrsta A-landsliðsleik árið 2010, þá aðeins 19 ára gamall. Kári hefur spilað 23 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Kári tók þátt í Evrópukenni einstaklinga á Spáni í apríl en það er heimslistinn sem ákvarðar hverjir fá keppnisrétt hverju sinni.

Kári stefnir á þátttöku á Ólympíuleikunum 2020 en það er heimslistinn sem ræður hverjir öðlast keppnisrétt. Kári hefur tekið þátt í 17 alþjóðlegum mótum á árinu og hefur hann náð að vinna sig mikið upp heimslistann. Í byrjun árs var hann í 523.sæti heimslistans í einliðaleik en hann er núna í 172.sæti listans. Listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna.

Kári flutti til Spánar á árinu þar sem hann stundar æfingar en áður bjó hann í Danmörku.

Badmintonkona ársins 2018 - Margrét Jóhannsdóttir f. 10. janúar 1995

Badmintonkona ársins 2018 er Margrét Jóhannsdóttir úr Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur.

Margrét Jóhannsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari á árinu. Þriðja árið í röð varð hún Íslandsmeistari í einliðaleik. Margrét varð einnig Íslandsmeistari í tvíliðaleik ásamt Sigríði Árnadóttur en þetta var annað árið í röð sem þær vinnan þennan titil.

Margrét hefur verið mjög mikilvæg fyrir íslenska landsliðið síðastliðin ár og á hún að baki 15 A-landsleiki en fyrsta A-landsleikinn spilaði hún árið 2013, þá 18 ára gömul. Margrét er hæst á styrkleikalista Badmintonsambandsins í tvíliða- og tvenndarleik.

Margrét var færð í Meistaraflokk aðeins 16 ára gömul en hún á að baki fjöldann allan af Íslandsmeistaratitlum í unglingaflokki, sem og í A- og B-flokki.

Margrét er sem stendur í 293.sæti heimslistans í tvíliðaleik kvenna ásamt meðspilara sínum Sigríði Árnadóttir. Í tvenndarleik er hún í 371.sæti heimslistans ásamt meðspilara sínum Kristófer Darra Finnssyni. Margrét hefur spilað á fimm alþjóðlegum mótum á árinu en listinn er byggður á tíu bestu mótum leikmanna.


97 views0 comments
bottom of page