top of page
Search
bsí

Íslensku pörin áfram í tvíliðaleik - bein útsending


Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson

Íslensku pörin í tvíliðaleik karla og kvenna eru komin áfram í 8 liða úrslit á RSL Lithuanian 2019 en íslensku pörin í tvenndarleik hafa lokið keppni.

Tvö íslensk pör spiluðu í tvíliðaleik karla í gær. Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson mættu Ivan Druzchenko og Oleksandr Kolesnik frá Úkraínu og var leikurinn spennandi. Davíð Bjarni og Kristófer töpuðu fyrstu lotunni 18-21 en unnu aðra lotuna 21-13 og unnu svo þriðju lotuna 21-18.

Jónas Baldursson og Daníel Jóhannesson mættu þeim Edgaras Slusnys og Linas Supronas frá Litháen og unnu Daníel og Jónas góðan sigur 21-11 og 21-16.

Bæði pörin keppa því í dag í 8 liða úrslitum.

Arna Karen Jóhannsdóttir og Sigríður Árnadóttir keppa í tvíliðaleik kvenna og mættu þær í fyrstu umferð litháunum Samantö Golubickaite og Perlu Murenaite og unnu Arna Karen og Sigríður örugglega í fyrstu lotunni 21-8. Sú seinni var jafnari en fór svo að íslensku stelpurnar unnu 21-17. Spila þær einnig í dag í 16 liða úrslitum.

Tvö íslensk pör tóku þátt í tvenndarleik mótsins. Daníel Jóhannesson og Sigríður Árnadóttir mættu í fyrstu umferð Adam Mcallister og Kate Frost frá Írlandi í hörku leik. Unnu Daníel og Sigríður leikinn 24-22 og 21-16. Í 16 liða úrslitum mættu þau svon Brian Holtschkne og Miröndu Wilson frá Þýskalandi í jöfnum leik þar sem þau þýsku höfðu betur 21-14 og 21-19.

Davíð Bjarni Björnsson og Arna Karen Jóhannsdóttir mættu í fyrstu umferð norðmönnunum Markus Barth og Veru Ellingsen. Unnu Davíð og Arna leikinn 21-16 og 21-13. Í 16 liða úrslitum mættu þau einnig þýsku pari, þeim Niclas Kirchberner og Jule Petrikowski og fór svo að Niclas og Jule unnu leikinni 20-22, 21-14 og 21-7.

Hafa því bæði tvenndarleikspörin lokið keppni.

Hægt er að fylgjast með nánari úrslitum og tímasetningu einstakra leikja hér.

Bein útsending verður frá leikjum dagsins á youtube rás Badminton Europe sem má finna hér.


97 views0 comments
bottom of page