Styrktaraðilar BSÍ

Næstu viðburðir

2 dagar, 19 klukkustundir
20. janúar 2017
8 dagar, 10 klukkustundir
26. janúar 2017
16 dagar, 19 klukkustundir
3. febrúar 2017
17 dagar, 9 klukkustundir
4. febrúar 2017
23 dagar, 18 klukkustundir
10. febrúar 2017
16. janúar, 2017 - mg

Hvidovre 2 endaði í fimmta sæti riðilsins

Drífa Harðardóttir leikur með Hvidovre 2 í dönsku þriðju deildinni. Liðið spilar í riðli þrjú og átti síðasta leikinn í riðlinum um helgina. Leikurinn var gegn Badminton Roskilde sem vann 8-5. Drífa lék fyrsta tvenndarleik og fyrsta tvíliðaleik kvenna fyrir lið sitt. Tvenndarleikinn lék hún með Michael Poulsen gegn Jeppe Ludvigsen og Petra Ulriksen. Drífa og Poulsen unnu 21-18, 21-14. Tvíliðaleikinn lék hún með Louise Seiersen gegn Rikke Madsen og Julie Frost Andersen. Drífa og Seiersen unnu 21-15, 22-20. Hvidovre 2 vann auk leikja Drífu fyrsta einliðaleik kvenna, annan einliðaleik karla og þriðja tvíliðaleik karla. Smellið hér til að sjá fleiri úrslit viðureignar Hvidovre 2 og Badminton Roskilde. Eftir þessa síðustu umferð riðilsins endar Hvidovre 2 í fimmta sæti riðilsins. Smellið hér til að sjá lokastöðuna í riðlinum. Liðið spilar því á vorönn um hvaða lið falla niður úr þriðju deild og mun spila í sama riðli og Drive 2 sem Magnús Ingi Helgason spilar með. Fyrsti leikur liðsins í þeim riðli er laugardaginn 28. janúar gegn Greve 3.

16. janúar, 2017 - mg

Drive 2 endaði í sjötta sæti riðilsins

Magnús Ingi Helgason spilar með Drive 2 í vetur. Liðið er í riðli 4 í þriðju deild í Danmörku. Drive 2 mætti Karlslundi í síðasta leiknum í riðlinum og tapaði 3-10. Magnús Ingi lék anna tvenndarleik og fyrsta tvíliðaleik karla fyrir lið sitt í þessum leik. Tvenndarleikinn lék Magnús Ingi með Lea Elm Jensen gegn Kim Nielsen og Mia Lentfer. Magnús og Jensen töpuðu 20-22, 17-21. Tvíliðaleikinn lék hann með Christian Westergaard Nielsen. Þeir mættu Gregers Schytt og Kennerh Mogensen sem unnu 21-19, 21-18. Drive 2 vann annan og fjórða einliðaleik karla auk annars tvíliðaleiks kvenna. Smellið hér til að sjá úrslit viðureigna Drive 2 og Karlslunde. Eftir alla leiki riðilsins endar Drive 2 í sjötta sæti riðilsins. Smellið hér til að sjá lokastöðuna í riðlinum. Drive 2 mun nú á vorönn spila um hvort liðið falli úr þriðju deild. Næsti leikur liðsins er laugardaginn 28. janúar gegn Charlottenlund.

16. janúar, 2017 - mg

U19-A landsliðsæfing á föstudaginn

U19 og A-landsliðsæfing verður á föstudaginn klukkan 19:20 til 21:00 í TBR. Æfingin verður í höndum Atla Jóhannessonar aðstoðarlandsliðsþjálfara. Eftirtaldir leikmenn eru boðaðir á æfinguna: U19+A:Eiður Ísak Broddason TBR, Jónas Baldursson TBR, Daníel Jóhannesson TBR, Davíð Bjarni Björnsson TBR, Kristófer Darri Finnsson TBR, Róbert Þór Henn TBR, Róbert Ingi Huldarsson BH, Sigurður Eðvarð Ólafsson BH, Haukur Gylfi Gíslason Samherjum, Atli Tómasson TBR, Elvar Már Sturlaugsson ÍA, Margrét Jóhannsdóttir TBR, Þórunn Eylands Harðardóttir TBR, Harpa Hilmisdóttir BH, Arna Karen Jóhannsdóttir TBR, Sigríður Árnadóttir TBR, Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir ÍA, Anna Margrét Guðmundsdóttir BH og Andrea Nilsdóttir TBR. Ef einhver kemst ekki þá er viðkomandi beðinn um að láta Atla vita. Netfang hans er atli@badminton.is

11. janúar, 2017 - mg

Dregið í Iceland International - RIG

Dregið hefur verið í RIG - Iceland International sem hefst 26. janúar og stendur til 29. janúar. Mjög góð þátttaka er í mótinu, sem er haldið í 20. skipti. Erlendir keppendur eru 88 talsins, nú þegar dregið hefur verið í mótið, auk 38 íslenskra keppenda. Erlendir keppendur koma frá 22 þjóðlöndum, Austurríki, Bandaríkjunum, Danmörku, Englandi, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Grænlandi, Indlandi, Litháen, Lúxemburg, Malasíu, Myanmar, Mexíkó, Noregi, Póllandi, Portúgal, Suður Afríku, Svíþjóð, Tékklandi, Þýskalandi og Wales. Mótið hefst fimmtudaginn 28. janúar með forkeppni í einliðaleik karla og kvenna. Leikir í forkeppninni fara fram frá klukkan 10 til 13:30. Heimslistinn 5. janúar ræður röðun í mótið. Í forkeppni einliðaleiks karla keppa 32 einstaklingar um átta sæti í aðalkeppninni, 18 íslenskir og 14 erlendir. Enginn íslensku keppendanna fer beint í aðalkeppnina. Sigurvegara mótsins frá því í fyrra, Kim Bruun frá Danmörku, er raðað númer eitt inn í einliðaleik karla. Finnanum Kalle Koljonen er raðað númer tvö. Bruun er númer 60 á heimslista og er, eins og áður sagði, sigurvegari RIG - Iceland International 2016 en Koljonen er númer 101 á heimslista.Í forkeppni einliðaleiks kvenna keppa 17 einstaklingar um átta sæti í aðalkeppninni, átta íslenskir og níu erlendir. Fimm Íslendingar komust beint inn í aðalkeppnina, Arna Karen Jóhannsdóttir, Harpa Hilmisdóttir, Margrét Jóhannsdóttir, Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir og Þórunn Eylands. Arna Karen mætir í fyrsta leik Vytaute Fomkinaite frá Litháen. Sú litháenska er númer 276 á heimslista en Arna er númer 737. Harpa mætir Nicola Cerfontyne frá Englandi, sem er raðað númer sex inn í greinina. Cerfontyne er númer 215 á heimslista. Úlfheiður á fyrsta leik við Aimee Moran frá Wales en sú hefur keppt áður á Iceland International. Moran, sem er raðað númer þrjú inn í greinina, er númer 172 á heimslista. Þórunn Eylands mætir Marlene Wåland frá Noregi en hún er númer 960 á heimslista. Margrét mætir Freya Patel-Redfearn frá Englandi. Hún er númer 738 á heimslista en Margrét er númer 322 á listanum. Georgina Bland frá Englandi er raðað númer eitt inn í einliðaleik kvenna og hún er númer 147 á heimslista. Panuga Riou frá Englandi er raðað númer tvö inn í greinina en hún er númer 164 á heimslista.Í tvíliðaleik karla keppa 22 pör, 10 íslensk og 12 erlend. Þýska parinu Daniel Benz og Andreas Heinz er raðað númer eitt inn í greinina en þeir eru númer 109 á heimslista í tvíliðaleik. Norsku bræðrunum Fredrik og Jesper Kristensen er raðað númer tvö en þeir eru númer 129 á heimslista. Þeir spiluðu í Iceland International í fyrra. Kristófer Darri Finnsson og Davíð Bjarni Björnsson mæta Callum Hemming og Johnnie Torjussen frá Englandi í fyrstu umferð. Þeir eru númer 316 á heimslista í tvíliðaleik.Í tvíliðaleik kvenna keppa 20 pör, átta íslensk og 11 erlend en auk þess spilar Sigríður Árnadóttir með danskri stúlku. Vytaute Fomkinaite og Gerda Voitechhovskaja frá Litháen er raðað númer eitt inn í greinina en þær eru númer 104 á heimslista. Aðra röðun fá Solvar Flaten Jorgensen og Natalie Syvertsen frá Noregi en þær eru númer 275 á heimslista. Margrét Jóhannsdóttir og Drífa Harðardóttir sitja hjá í fyrstu umferð en mæta í annarri umferð litháenska parinu sem er raðað númer eitt inn í greinina. Í tvenndarleik keppir 31 par, 16 íslensk og 15 erlend. Bastian Kersaudy og Lea Palermo frá Frakklandi fá fyrstu röðun. Þau eru númer 59 á heimslista. Aðra röðun fá Callum Hemming og Fee Teng Liew frá Englandi en þau eru númer 268 á heimslista. Kristófer Darri Finnsson og Margrét Jóhannsdóttir etja kappi við Carl Christan Mork og Elisa Wiborg frá Noregi í fyrstu umferð. Þau eru númer 429 á heimslista. Daníel Jóhannesson og Sigríður Árnadóttir lenda í fyrsta leik á móti enska parinu sem er raðað númer tvö inn í greinina. Davíð Bjarni Björnson og Drífa Harðardóttir mæta í fyrsta leik Atla Tómassyni og Eyrúnu Björgu Guðjónsdóttur. Egill Guðlaugsson og Erla Björg Hafsteinsdóttir mæta Max Flynn og Lizzie Tolman frá Englandi. Aðalkeppnin hefst á föstudeginum klukkan 9 og keppt er látlaus til klukkan 22:00 um kvöldið, fram í átta liða úrslit. Þau fara fram á laugardagsmorgninum og eftir hádegi fara fram undanúrslit. Á sunnudeginum eru spiluð úrslit og RÚV sýnir frá þeim. Úrslitin hefjast klukkan 10 í TBR. Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar í RIG - Iceland International.
10. janúar, 2017 - mg

Úrslit Meistaramóts TBR

Áttunda mót Dominosmótaraðar BSÍ, Meistaramót TBR 2017, var um helgina. Keppt var í öllum greinum í meistaraflokki, A- flokki og B-flokki. Í meistaraflokki vann Eiður Ísak Broddason TBR en hann vann í úrslitum Kristófer Darra Finnsson TBR í einliðaleik karla, eftir oddalotu, 22-24, 21-14, 21-13. Einliðaleik kvenna vann Margrét Jóhannsdóttir TBR en hún vann í úrslitum Örnu Karen Jóhannsdóttur TBR 21-13, 21-12. Tvíliðaleik karla unnu Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnsson TBR. Þeir unnu í úrslitum Daníel Jóhannesson og Jónas Baldursson TBR eftir oddalotu 18-21, 21-8, 23-21. Tvíliðaleik kvenna unnu Margrét Jóhannsdóttir og Sigríður Árnadóttir TBR en þær unnu Elsu Nielsen og Sunnu Ösp Rúnólfsdóttur TBR 21-14, 21-16. Tvenndarleikinn unnu Daníel Thomsen og Margrét Jóhannsdóttir TBR. Þau unnu í úrslitum Daníel Jóhannesson og Sigríði Árnadóttur TBR 21-11, 21-8. Í A-flokki sigraði Þórður Skúlason BH í einliðaleik karla. Hann vann í úrslitum Daníel Ísak Steinarsson BH 21-19, 21-14. Í einliðaleik kvenna vann Ingibjörg Sóley Einarsdóttir BH Katrínu Völu Einarsdóttur BH 21-16, 21-13. Tvíliðaleik karla unnu Haraldur Guðmundson og Jón Sigurðsson TBR en þeir unnu í úrslitaleiknum Egil Sigurðsson TBR og Þórhall Einisson Hamri 21-17, 21-19. Guðrún Björk Gunnarsdóttir TBR og Hrund Guðmundsdóttir Hamri unnu tvíliðaleik kvenna en þær unnu í úrslitum Arndísi Sævarsdóttur og Svanfríði Oddgeirsdóttur Aftureldingu 21-14, 21-19. Tvenndarleikinn unnu Jón Sigurðsson og Guðrún Björk Gunnardóttir TBR eftir sigur á Þórhalli Einissyni og Hrund Guðmundsdóttur Hamri í úrslitum 21-12, 24-22. Víðir Þór Þrastarson Aftureldingu sigraði í einliðaleik karla í B-flokki en hann vann í úrslitum Andra Broddason TBR 21-9, 21-8. Júlíana Karitas Jóhannsdóttir TBR BH sigraði einliðaleik kvenna í B-flokki en hún vann í úrslitum Sólrúnu Önnu Ingvarsdóttur BH 21-17, 22-20. Tvíliðaleik karla unnu Axel Örn Sæmundsson UMF Þór og Víðir Þór Þrastarson Aftureldingu en þeir unnu í úrslitaleiknum Egil Magnússon og Hall Helgason Aftureldingu 21-12, 21-14. Tvíliðaleik kvenna unnu Júlíana Karitas Jóhannsdóttir og Ragnheiður Birna Ragnarsdóttir TBR en þær unnu í úrslitum Björk Orradóttur og Evu Margit Atladóttur TBR 21-16, 23-21. Tvenndarleik unnu Víðir Þór Þrastarson og Harpa Gísladóttir Aftureldingu en þau unnu Kristján Kristjánsson BH í úrslitum 21-17 og 21-10. Smellið hér til að sjá fleiri úrslit á Meistaramóti TBR. Myndir frá mótinu má finna á Facebook síðu TBR. Næsta mót á Dominosmótaröð BSÍ er Óskarsmót KR 11. - 12. febrúar. Deildakeppni BSÍ fer fram helgina 17. - 19. febrúar.