Sune Gavnholt ráðinn landsliðsþjálfari Íslands í badminton
- bsí
- 5 days ago
- 1 min read
Sune Gavnholt hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Íslands í badminton og mun taka til starfa 1. janúar 2026.

Sune Gavnholt hefur þjálfað badminton í yfir 20 ár og er fyrrum landsliðsþjálfari Austurríkis og Færeyja. Sune er vel menntaður og reynslumikill þjálfari ásamt því að vera öflugur spilari á árum áður. Hann er menntaður kennari og er með hæstu mögulegu þjálfaragráðu frá Danmörku. Sune starfar við þjálfun hjá Stavtrup og Randers í Danmörku, hann er einliðaleiksþjálfari hjá Badminton Denmark ásamt því að leiða þjálfun U19 hjá Badminton Europe.
Sune kemur til Íslands í byrjun janúar 2026 og mun halda æfingar með afrekshópum BSÍ ásamt því að funda með stjórn, þjálfurum og félögum. Í framhaldi mun hann koma og fylgjast með RSL Iceland International mótinu, sem haldið verður hér á landi dagana 22.-25. janúar, og tekur þá til við að leggja línur fyrir árið.
„Við erum ákaflega ánægð með að fá Sune Gavnholt til starfa hjá okkur. Hann er reynslumikill og vel menntaður þjálfari“ segir Kristján Daníelsson, formaður Badmintonsambands Íslands. „Við bjóðum hann velkominn og erum mjög spennt fyrir komandi tímum.“
Nánari upplýsingar:
Kristján Daníelsson, formaður Badmintonsambands Íslands
Netfang: kristjan@badminton.is
Sími: 787 1000
Badmintonsamband Íslands var stofnað árið 1967 og innan þess starfa um 30 félög. Félagsmenn eru um 5000 talsins.











Comments